Innlent

Getur vel séð fyrir sér að verslunarmannafélög sameinist öll

Gunnar Páll Pálsson, formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur.
Gunnar Páll Pálsson, formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur. MYND/GVA

Formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur getur vel séð fyrir sér að verslumannafélög landsins sameinist í eitt félag á næstu árum, en Reykjavíkurfélagið hefur nýverið gengið frá samkomulagi sem ljúka á með sameiningu við verslunarmannafélögin í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum.

Félagsmenn í Verslunarmannafélagið Hafnarfjarðar samþykktu fyrr í vikunni samkomulag um nánara samstarf við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Í samkomulaginu er kveðið á um fulla sameiningu félaganna eftir eins árs reynslutíma, sé vilji fyrir því hjá báðum aðilum. Í síðasta mánuði var sams konar samkomulag gert við Verslunarmannafélag Vestmannaeyja en þar er reynslutíminn þó tvö ár í stað eins.

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, segir að með samkomulaginu öðlist félagar í verslunarmannafélögunum í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum full réttindi á við VR-félaga frá áramótum. Þá segir hann ávinninginn af sameiningunni allnokkurn. VR stækki og eflist sem eining sem verði hagkvæmari og þannig geti VR veitt félögum sínum betri og öflugri þjónustu.

Gunnar segir frekari sameiningu verslunarfélaga ekki í hendi en hann geti vel hugsað sér að þau verði að einu í fyllingu tímans. Á þingi Landssambands íslenskra verslunarmanna hafi verið ákveðið að nota næsta ár til að ræða það hvort taka eigi upp mun nánari samvinnu meðal verslunarmannafélaga á landinu. Hann geti vel séð fyrir sér að þau renni saman í eitt landsfélag.

Aðspurður hvort Verslunarmannafélag Íslands verði þá að veruleika innan nokkurra ára segir Gunnar ef af sameiningu verði, verði að finna nafn, en nú sé mjög í tísku að nota þriggja stafa skammstafanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×