Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, reyndi í gær að taka af öll tvímæli um stefnu Bandaríkjastjórnar hvað varðar harkalegar aðferðir við yfirheyrslu. Lýsti hún því yfir að enginn starfsmaður bandarískra stofnana mætti beita fólk niðurlægjandi meðferð, hvort sem væri í eigin landi eða erlendis.
Ummæli Rice, sem hún lét falla í opinberri heimsókn sinni í Úkraínu, komu í kjölfar misvísandi upplýsinga í Bandaríkjunum um það hvort liðsmenn leyniþjónustunnar CIA hefðu heimild til að beita aðferðum sem starfsmönnum annarra bandarískra stofnana, svo sem hersins, væri óheimilt. Ummælin fylgja líka í kjölfar djúpstæðrar og viðvarandi gagnrýni frá bandamönnum Bandaríkjanna í Evrópu á yfirheyrsluaðferðir svo sem "vatnsbrettið", þar sem fangar eru reyrðir við trébretti og dýft í vatn. Rice sagði að það væri þáttur í stefnu Bandaríkjastjórnar að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum "gildi um bandaríska liðsmenn hvar sem þeir eru, hvort sem það er í Bandaríkjunum eða utan þeirra". SÞ-sáttmálinn bannar líka aðferðir sem ekki uppfylla strangt til tekið hina lögfræðilegu skilgreiningu á pyntingum, þar á meðal aðferðir sem mannréttindasamtök hafa sakað bandarísk yfirvöld um að beita kerfisbundið í fangabúðunum í herstöð Bandaríkjahers í Guantanamo á Kúbu. Talsmenn Bandaríkjastjórnar hafa áður sagt að bannið við harðneskjulegri, ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð fanga gildi ekki um Bandaríkjamenn að störfum utan Bandaríkjanna. Í framkvæmd þýddi þetta að liðsmenn CIA hefðu heimild til að beita aðferðum í fangelsum á erlendri grund sem þeim væri óheimilt heima fyrir. Þrátt fyrir þetta ósamræmi sagði Scott McClellan í gær að sú stefna sem utanríkisráðherrann lýsti væri gildandi stefna stjórnarinnar.