Sjálfstæðir leikhópar eru afar ósáttir við afgreiðslu alþingis á úthlutun aukafjárveitingar upp á tíu milljónir sem fer til Borgarleikhússins í staðinn fyrir að renna til starfsemi sjálfstæðu leikhópanna.
"Það er óásættanlegt að þeir fjármunir sem ætlaðir eru starfsemi atvinnuleikhópa í umræddri tillögu fari í að greiða niður halla á rekstri Leikfélags Reykjavíkur," segir í yfirlýsingu frá Sjálfstæðu leikhúsunum. Fjölmargir sjálfstæðir leikhópar sendu mótmælabréf til alþingis, þar á meðal Vesturport sem segir að með þessu sé því "mikilvæga starfi sem unnið er á okkar vettvangi ekki sýndur skilningur."
Sjálfstæðu leikhúsin fá á þessum fjárlögum samtals 47 milljónir, sem er óbreytt upphæð frá síðasta ári. Leikhóparnir höfðu gert sér vonir um að tíu milljóna króna hækkun á framlögum til leikhúsmála kæmi þeim til góða, en niðurstaðan varð sú að Leikfélag Reykjavíkur fær þessa hækkun óskipta í sinn hlut.
"Af þessum 47 milljónum eru 17 milljónir bundnar Hafnarfjarðarleikhúsinu, sem er vissulega mjög gott út af fyrir sig, en það þýðir að 30 milljónum er skipt upp á milli allra hinna hópanna."
Á sýningar sjálfstæðu leikhúsanna flykkjast um það bil 370 þúsund manns á þessu ári, sem er álíka mikið og áhorfendur Þjóðleikhússins og Leikfélags Reykjavíkur til samans. Gróskan hefur verið mikil á síðustu árum, margar af athyglisverðustu sýningum í leikhúsheiminum eru á þeirra vegum. Meðal annars hafa margar af vinsælustu sýningum Borgarleikhússins verið sýningar sjálfstæðra leikhópa sem fengið hafa inni í húsinu, og má þar nefna sýningar eins og Grease, Brilljant skilnað og Kalla á þakinu.
"Þetta eru sýningar sem moka inn áhorfendum og að sjálfsögðu skila þær fullt af tekjum. Við samþykkjum alls ekki að Leikfélag Reykjavíkur sé í nokkrum halla vegna atvinnuleikhópa í húsinu."