Innlent

Handfrjáls búnaður líka hættulegur

Fjórum sinnum meiri líkur eru á að ökumaður sem talar í farsíma undir stýri lendi í umferðarslysi en aðrir ökumenn. Virðist þá engu skipta hvort notaður er handfrjáls búnaður. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem birt var í The British Medical Journal fyrr í vikunni. Þar voru teknar saman upplýsingar um umferðarslys sem 456 ástralskir ökumenn höfðu lent í og þær bornar saman við skráð símtöl í og úr farsímum þeirra. Í ljós kom að þeir sem sátu undir stýri og töluðu í síma voru fjórum sinnum líklegri til að lenda í umferðaróhappi. Sérstaklega var athugað hvort notaður var handfrjáls búnaður. Það sýndi sig svo ekki var um villst að engu skipti hvort talað var beint í símtækið eða í gegnum slíkan búnað.  Í Ástralíu er ökumönnum skylt að nota handfrjálsan búnað við símamas, líkt og íslenskum ökumönnum. Alþingi samþykkti sérstaka breytingu á umferðalögum árið 2001 á þá leið til að stuðla að auknu umferðaröryggi. Þeir sem stóðu að könnununni í Ástralíu halda því þó fram að slík lagaákvæði veiti fólki falska öryggiskennd. Áhættan felist ekki í því að handfjatla símtækið heldur sé það athyglin sem fer í símtalið sjálft sem geri það að verkum að fólk sé líklegra til að valda og lenda í umferðarslysum. Þeir benda enn fremur á að erfitt geti reynst að banna fólki alfarið að tala í síma undir stýri, enda ótækt fyrir lögreglu að hafa uppi á þeim sem gerðu slíkt í gegnum handfrjálsan búnað. Hægt væri að breyta farsímum á þann veg að ekki sé hægt að nota þá meðan bifreiðar eru á ferð en þeir telja þó litlar líkur að framleiðendur farsíma sjái sér hag í því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×