Innlent

Kannast ekki við kostnaðaráætlun

Verktakafyrirtækið NCC þvær hendur sínar af Árna Johnsen og fullyrðingum hans um að fyrirtækið telji kostnað við jarðgöng til Vestmannaeyja aðeins helminginn af því sem Vegagerðin áætlaði. Árni Johnsen kynnti fyrir viku það sem hann kallaði kostnaðaráætlun sænska risaverktakafyrirtækisins NCC um jarðgöng til Vestmannaeyja. Áætlun þessi sýndi samkvæmt Árna Johnsen að hægt væri að grafa um 20 kílómetra löng göng til Eyja fyrir 14 til 16 milljarða króna, sem er helmingi lægra verð en ráðgjafar Vegagerðarinnar höfðu áætlað. Árni sagði í viðtali í Íslandi í dag 20. janúar síðastliðinn að loksins væru komnar raunhæfar tölur. Allt annað hefði verið mat ýmissa aðila sem hefðu ekki verið beðnir um að setja niður á blað nákvæmlega það sem verktaki geti staðið við. En við þetta ætlar NCC ekki að standa. Öyvind Kvaal, talsmaður NCC, segir að félagið hafi ekki verið á Íslandi og ekki séð verkefnið. Það viti ekki um hvað það snúist eða um hvers konar fjöll sé að ræða og það sé ómögulegt að komast að einhverri niðurstöðu út frá samtali á milli verkefnisstjóra fyrirtækisins í Færeyjum og einstaklings á Íslandi. NCC segir í yfirlýsingu til fréttastofunnar að hvorki liggi fyrir útreikningar, mat, greining né tilboð af hálfu fyrirtækisins vegna jarðganga til Eyja og ekkert sem skuldbindi NCC. Aðspurður hvort hann geti útskýrt hvers vegna fyrrverandi þingmaður á Íslandi haldi því fram að hann hafi kostnaðaráætlun frá NCC svarar Kvaal því neitandi. Hann hafi ekki fengið kostnaðaráætlun frá NCC. Árni Johnsen hefur boðað til borgarafundar í Höllinni í Vestmannaeyjum í kvöld klukkan níu, meðal annars til að kynna hinar lágu kostnaðartölur sem hann segist hafa í áætlun frá NCC. Kvaal var inntur eftir því hvað fyrirtækinu fyndist um það og hann svaraði því til að það væri vandamál Árna Johnsens. Fyrirtækið tæki ekki ábyrgð á því sem Árni segði opinberlega. Þetta væru ekki útreikningar eða tölur frá NCC og því ekki neitt sem skuldbindi fyrirtækið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×