Innlent

Lítið um skil á jólabókum

Mynd/Vísir
Bókasala var jöfn og góð fyrir jólin að sögn bóksala. Lítið hefur verið um skil á bókum enn sem komið er en flestar bókaverslanir taka við bókum fram yfir áramót.

Elsa María Ólafsdóttir, verslunarstjóri Bókabúðar Máls og Menningar við Laugaveg, segir að sala á bókum hafi verið góð fyrir jólin. Hún segir að margir titlar hafi selst vel en þó megi segja að Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason sé á toppnum. Elsa María segir að ekki hafi verið mikið um skil enn sem komið er, hverju sem þar sé um að kenna. Hún segir þó að þegar sala jólabóka sé dreifð milli margra titla líkt og nú fyrir jólin, þá sé skil það sömuleiðis, en það sé engin ein bók sem standi uppúr hvað skil varði.

Hjá Arndísi B. Sigurgeirsdóttur, eiganda Iðu, fengust þær upplýsingar að bókasala hafi sömuleiðis verið góð í bókaverslun Iðu. Þar hefur einnig lítið verið um skil og bókasala fyrir jólin var jöfn og góð að hennar sögn. Enginn skilafrestur er á bókum í verslun Iðu, en eingöngu er tekið við bókum sem eru í plasti. Í verslunum Máls og Menningar er skilafrestur fram til 14. janúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×