Innlent

Ísland orðið að borgríki

Ágúst Einarsson
Ágúst Einarsson

Í nýrri bók Ágústs Einarssonar, Rekstrarhagfræði, segir hann Ísland vera orðið borgríki. 63 prósent þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu. Einungis fimm önnur lönd hafa stærra hlutfall landsmanna á höfuðborgarsvæðinu.Í upphafi 20. aldar bjuggu 87 prósent Íslendinga í dreifbýli en 13 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2003 hafði þróunin snúist við, þegar 63 prósent bjuggu í þéttbýli, en 37 prósent utan þess.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók Ágústs Einarssonar, prófessors í viðskipta- og hagfræðideild við Háskóla Íslands. Ágúst segist flétta saman margs konar svipmyndir í bókinni, með því að tengja fræðin við lífið, og meðal þess sem hann vekur athygli á í einni svipmyndinni er byggðasamþjöppun í landinu.

"Ég skoðaði rúm 160 lönd, sem eru nær öll lönd í heiminum, og það voru einungis fimm lönd þar sem stærra hlutfall landsmanna býr á höfuðborgarsvæði."

Ágúst segir þessi lönd fimm vera Singapúr, Barein, Kúvæt, Bahamaeyjar og Katar.

"Ef við tökum höfuðborgarsvæðið aðeins víðar og förum upp á Akranes og tökum Suðurnesin og Árborg, er hlutfallið komið í 72 prósent. Þetta svæði er eitt atvinnusvæði og því orðið höfuðborgarsvæðið." Hann segir þá samþjöppun íbúa hvergi meiri í heiminum.

"Það eru alls staðar fimm til tuttugu prósent sem búa á höfuðborgarsvæði. Aðrir íbúar eru dreifðir um landið. Á Íslandi er þetta öðruvísi. Ísland er orðið borgríki, án þess að eiginlega sé tekið eftir því." Landsbyggðin horfin Í bókinni segir að landsbyggðin sé einfaldlega horfin, sé miðað við önnur lönd.

"Þetta er merkilegur samanburður í allri umræðu hér á landi og fyrir öll viðmið fyrir rekstarhagfræði. Sú byggðaumræða sem hefur verið mjög sterk undanfarin ár og áratugi er að mörgu leyti byggð á misskilningi. Ef við berum okkur saman við önnur lönd er niðurstaðan að við búum í borgríki en ekki í hefðbundnu samfélagi eins og algengast er erlendis." Afleiðingarnar, segir Ágúst, eru að við búum við öðruvísi hagkerfi.

"Sé verslun til dæmis skoðuð eru dreifingarleiðir að mörgu leyti styttri en annars staðar, það lækkar dreifingarkostnað, en hins vegar er landið stórt." Pólitískar afleiðingar segir hann þær að fólk verði að gera sér grein fyrir að þróunin hefur verið hér öðruvísi en í nágrannalöndunum. Spurður hvort þetta sé þróun sem hægt sé að snúa við, segir hann það nær útilokað.

"Þróunin er frekar í hina áttina, að það fækki enn meira á landsbyggðinni og verði enn meira þéttbýli hér suðvestanlands. Við verðum að horfast í augu við að þetta er orðin mjög sérstök þróun, eins og í örfáum löndum heims og við verðum að draga lærdóm af því."

Þrjár til tíu milljónir Íslendinga Vegna þess hve landið er stórt segir Ágúst að eitt af sérkennum Íslands sé hve lítill hluti landsins sé nýttur til búsetu og segir hann þrjár til tíu milljónir manna geta búið hér við góð skilyrði.

"Í sjálfsþurftarbúskap bar landið ekki meira en um 50.000 íbúa, en nú eru skilyrði allt önnur. Á höfuðborgarsvæðinu búa 63 prósent íbúa á einu prósenti af flatarmáli landsins. Þannig að það er hægt að koma fyrir milljón manna byggð á höfuðborgarsvæðinu án nokkurra erfiðleika, milljón manna byggð á Suðurnesjum og annarri milljón manna byggð á Suðurlandsundirlendi. Þetta er ákveðin framtíðarsýn sem ég set upp varðandi möguleika Íslendinga. Sveigjanleg og fljót að laga okkur að breyttum aðstæðum."

Ágúst fjallar einnig í bók sinni um útrás hér á árum áður og minnir á að nú sé ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar hefja útrás. Hann bendir meðal annars á upphaf Loftleiða sem fyrsta lággjaldaflugfélagið; þegar Íslendingar lögðu undir sig dýrustu saltiskmarkaði Spánar í upphafi tuttugustu aldar og gengi Coldwater í Bandaríkjunum.

Auk þess fjallar Ágúst um uppgang Bakkavarar og KB banka og segir lykilinn að þeim uppgangi vera að velmenntaðir einstaklingar eru við stjórnvölinn. Þeir skynja heiminn, eða næstu lönd, sem sitt markaðssvæði og taka áhættu þegar hún á við. Íslendingar eru nú að njóta okkar eiginleika, sem er að vera sveigjanleg þegar við á og erum fljót að laga okkur að breyttum aðstæðum. Þær þjóðir sem búa yfir þessum eiginleikum eru nú að sækja mjög fram. Þessir eiginleikar okkar Íslendinga komu fram í byrjun 20. aldar þegar við breyttum okkar hagkerfi á mjög skömmum tíma. Þessir eiginleikar eru nú aftur að koma að verulegu gagni eins og fyrir um 50 árum. Lykillinn er góð menntun. En menntunin ýtir einnig undir þróun borgríkisins.

"Höfuðborgarsvæðið þykir ekki stórt á alþjóðlega vísu. Fólk vill búa í stærra umhverfi og við erum ekki mjög mörg. Hluti af því er vegna menntunar. Fólk er að flytjast frá landsbyggðinni til að fara í skóla, eða vegna þess að störf við hæfi þeirra sem hafa menntað sig eru ekki til staðar nema í miklu þéttbýli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×