Innlent

Aukinn sáttatónn

Margt bendir til þess að ágreiningur um þá sjávarútvegsstefnu sem þjóðin hefur búið við í nærri tvo áratugi, fari minnkandi, að minnsta kosti meðal stjórnmálamanna. Þannig rétti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar nýverið fram sáttahönd til útvegsmanna og boðaði nýja stefnu síns flokks í þessum mikilvæga málaflokki; stefnu sem felur í sér að horfið verði frá því að deila um upphaflega úthlutun kvótans á sínum tíma.

Og undir þennan sáttatón flokksins tekur helsti talsmaður hans í sjávarútvegsmálum um langt árabil. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra er líka þeirrar skoðunar að meiri friður sé um sjávarútveginn en oft áður og telur að tvennt komi þar til; annars vegar minnkandi vægi greinarinnar í þjóðarbúskapnum og hins vegar upptaka veiðigjaldsins.

En auðvitað eru ekki allir á því að sátt sé að nást um sjávarútvegsmálin; Grétar Mar Jónsson, fyrrum formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins segir fjarri því sátt um málaflokkinn og að hún náist aldrei meðan núverandi kvótakerfi er við lýði. Arthúr Bogason talsmaður smábátaeigenda segist heldur ekki verða var við sáttahljóð í greininni en að sáttin sé þó meiri nú um stundir en oft áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×