Lífið

Gyllti kötturinn

Eigendurnir Ása Ottesen, Jóna Elísabet Ottesen og Hafdís Þorleifsdóttir eru eigendur Gyllta kattarins.
Eigendurnir Ása Ottesen, Jóna Elísabet Ottesen og Hafdís Þorleifsdóttir eru eigendur Gyllta kattarins.

"Það hefur verið draumur okkar mjög lengi að opna tískubúð og ég er búin að vera að tala um þetta frá því ég var lítil," segir Ása Ottesen. "Ég er búin að vinna í tískubransanum ótrúlega lengi, hef bæði unnið sem stílisti og var til dæmis verslunarstjóri í ­Centrum.­ Jóna systir mín var verslunarstjóri í Sautján Jeans og Hafdís var aðstoðarverslunarstjóri í Companys í Kringlunni. Svo allt í einu ákváðum við að kýla á þetta og loksins er draumurinn orðinn að veruleika."

Að sögn Ásu er undir­búningurinn búinn að vera langur og strangur og segir hún svona lagað mikla vinnu. "Við erum varla búnar að sofa því hugurinn er alltaf við þetta. Við vorum alltaf að koma með nýjar og nýjar hugmyndir en þetta hefur samt gengið mjög vel. Erum bæði búnar að fara til London og Amsterdam til að kaupa fötin en hyggjumst síðar meir líka fara til Kaupmannahafnar, Parísar og Berlínar og kanna Evrópu aðeins betur."

Adidas í gamla stílnum

Búðin mun ekki einungis selja notuð föt heldur munu stúlkurnar einnig bjóða upp á ýmsa skemmtilega hluti eins og síma, klukkur og þess háttar auk þess sem ný föt verða einnig fáanleg í búðinni. "Við vildum ekki bjóða einungis upp á notaðar vörur heldur vildum við frekar hafa þetta eitthvað blandað og búðin fær þannig fjölbreytilegan blæ. Við verðum bæði með íslenska hönnun og erlenda auk þess sem við seljum ýmiss konar skemmtilegt skran og erum með alls konar föt, allt frá íþróttafötum upp í síðkjóla. Þetta er bara partíbúð og alls ekki fyrir neinn sérstakan aldur heldur ættu konur á öllum aldri að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Við erum einnig með frábær "oldschool" íþróttaföt frá Adidas sem eru ekki notuð heldur eru einhvers konar prufur og svo langar okkur mjög mikið að selja vínylplötur í framtíðinni."

Harður heimur
@Mynd -FoMed 6,5p CP:leggings Þessar minna örlítið á níunda áratuginn og myndu sóma sér vel undir flottum kjól.

Mörgum finnst notuð föt vera skrambi dýr á Íslandi og hafa viðskiptavinir líklega oft velt fyrir sér hver ástæðan fyrir því sé. Margir telja að verið sé að okra á kaupendunum. "Við vorum alveg sammála um að notuð föt á Íslandi væru of dýr og okkur langaði að hafa fötin ódýrari en gengur og gerist hérna. Hins vegar komumst við að því að þegar öll gjöld eru komin, skattar og tollar og þess háttar, kostnaður við að fara út og kaupa fötin og reka búðina þá er erfitt að halda verðinu mjög lágu. Eina leiðin til að finna ódýru fötin er að versla á flóamörkuðum. Þetta er harður heimur og það er mjög erfitt að finna flott "second hand" föt því það vill enginn segja manni hvaðan fötin í búðunum koma. Okkur hefur hins vegar tekist að halda verðinu mjög sanngjörnu og í raun lágu miðað við Íslandsmarkað."

Allt að smella saman
@Mynd -FoMed 6,5p CP:töff peysa Tíglamunstrið er algjörlega klassískt en mjög heitt núna eins og allt sem minnir á gamlan stíl.

Ása hefur ekki bara reynslu á tískusviðinu heldur hefur hún einnig stundað nám í tískufræðum. "Ég lærði tísku- og markaðsfræði í tvö ár í London og svo um síðustu jól fór ég á stílistanámskeið í St. Martins skólanum. Við erum hins vegar allar með þetta í blóðinu og lifum og hrærumst í tískuheiminum." Aðspurð hvaðan nafnið Gyllti kötturinn kemur segir hún Hafdísi hafa stungið upp á því. "Við vorum búnar að velta þessu fyrir okkur fram og aftur og vorum með hugmyndabanka þar sem vinir og vandamenn komu með uppástungur. Hafdís frænka kom með þetta nafn og þó við værum ekki vissar fyrst þá erum við mjög ánægðar með þetta núna. Þetta er allt að smella saman. Við erum búnar að innrétta búðina en maðurinn hennar Hafdísar er smiður og hjálpaði okkur í því. Búðin er orðin mjög hlýleg og í þessum gamla stíl og við erum bara ótrúlega ánægðar og spenntar að takast á við nýjar áskoranir í þessum heimi. Okkur finnst líka mjög skemmtilegt að búðin er staðsett í Austurstræti því það hefur einmitt vantað meira líf í þá götu - eins og var í gamla daga. Vonandi náum við að draga fólk hingað niður eftir með fínu búðinni okkar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.