Erlent

Tíu ár frá fjöldamorðunum

Tugþúsundir minntust þess í Srebrenica í Bosníu í dag að tíu ár eru liðin frá því að átta þúsund íslamskir karlar og drengir voru myrtir á hrottalegan hátt af Bosníu-Serbum í Bosníustríðinu. Fjöldamorðin í Srebrenica í júlí árið 1995 voru þau verstu í Evrópu frá því í síðari heimstyrjöldinni. Hersveitir Bosníu-Serba, undir forystu Radovans Karadzic, þáverandi forseta Bosníu-Serba, og Ratkos Mladic herforingja söfnuðu körlum og drengjum saman á yfirlýstu griðasvæði Sameinuðu þjóðanna, skutu þá til bana og hentu líkunum í fjöldagrafir. Tugþúsundir, þar á meðal ættingjar hinna látnu, tóku þátt í minningarathöfn í Potocari kirkjugarðinum í Srebrenica og fylgdust með þegar líkamsleifar sex hundruð og tíu karla voru bornar til grafar en þegar hafa fundist um sextíu fjöldagrafir. Karadzic og Mladic eru ákærðir fyrir þjóðarmorð vegna atburðanna en þeir hafa verið á flótta undan réttvísinni í tíu ár. Pierre-Richard Prosper, fulltrúi stríðsglæpadómstólsins, segir dómstólinn ákveðinn í að finna Karadzic og Mladic og tryggja að þeir svari til saka frammi fyrir honum í Haag. „Ég fullyrði að við teljum að dómstóllinn verði að starfa svo lengi sem þeir ganga lausir,“ segir Prosper.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×