Innlent

Skarst illa á hálsi

Til átaka kom um borð í skemmtiferðaskipinu Saga Rose í gærkvöld þar sem skipið var á siglingu djúpt norður af landinu og óskaði skipstjóri eftir aðstoð þyrlu til að sækja slasaðan mann um borð. Hafði sá skorist illa á hálsi og misst tvo lítra af blóði. Þyrla Landhelgisgæslunnar lagði þegar af stað þrátt fyrir mikla þoku á hafsvæðinu og var blóð haft meðferðis. Með aðstoð nærliggjandi skipa og veðurfræðinga var hægt að beina skipinu inn á svæði þar sem engin þoka var og var hinn særði hífður um borð og flogið með hann beint til Reykjavíkur þar sem þyrlan lenti við Borgarspítalann klukkan rúmlega þrjú í nótt. Maðurinn er ekki í lífshættu og ekki er nánar vitað um atvikið um borð, nema hvað hinn særði er frá Filippseyjum og er í áhöfn skipsins. Eiginkona hans er jafnframt í áhöfninni og heldur hún áfram för með skipinu sem er á leið til Norður-Noregs en það lagði úr höfn á Ísafirði í gær. Skipið er skráð á Bahama-eyjum.  Atvikið varð utan tólf mílna landhelgi Íslands en innan efnahagslögsögunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×