Innlent

140 umsóknir á fyrsta degi

140 umsóknir bárust í dag um þrjátíu einbýlishúsalóðir í Lambaseli, strax á fyrsta degi. Það hefur verið nóg að gera á framkvæmdasviði borgarinnar í dag við að taka við umsóknum um þrjátíu lóðir í Lambaseli, þó umsóknarfresturinn renni ekki út fyrr en 7. apríl. Harður slagur er hafinn og menn strax farnir að leita leiða til að komast framhjá úthlutunarreglum og auka möguleika sína þegar dregið verður úr þeim þúsundum umsókna sem búist er við. Málið er einfalt - það eru bara ekki til nógu margar lóðir til að mæta eftirspurn. Og hvers vegna? Alfreð Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir að uppsveiflan hafi verið skyndileg - það hafi ekki verið mögulegt að sjá hana fyrir. Gjörbreyting hafi orðið á u.þ.b. einu ári, bæði vegna lánamöguleika og þenslu og uppgangs. Reyna á að slá á eftirspurnina með því að úthluta fyrr en áætlað var lóðum undir 900 íbúðir í landi Úlfarsfells. En hvers vegna eru ekki skipulögð ný byggingasvæði strax? Alfreð segir að það taki 2-3 ár; það þurfi t.a.m. að brjóta land upp og leggja veitur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×