Innlent

Skammarlega vægir dómar

 

Lögreglumenn eru afar ósáttir við átján mánaða dóm í máli manns sem lagði til lögreglumanns með hnífi. Þeir segja dóminn vægan, en löggjöfinni sé ekki um að kenna heldur nýti dómstólar ekki þær heimildir sem þeir hafi.

Landssamband lögreglumanna segir lögreglumenn á Norðurlöndum lifa skemur en aðrar stéttir og spilar slæmt starfsumhverfi þar stóran þátt. Páll E. Winkel, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna, segir að íslenskir lögreglumenn lifi þrettán árum skemur en aðrar stéttir og þegar kannað er hvað valdi því þá er eitt sem stendur upp á en það eru dómar fyrir árásir á lögreglumenn.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi mann í gær í átján mánaða fangelsi fyrir ýmis brot, þar á meðal fyrir að ráðast að tveimur lögreglumönnum með hnífi, og hóta barnsmóður sinni og fjölskyldu hennar líkamsmeiðingum og lífláti. Páll segir dóminn sérstakan þar sem árásirnar tvær séu verulega alvarlegar og refsiramminn sé annars vegar sex ár og hins vegar sextán ár. Þrátt fyrir langan feril afbrotamannsins og það hversu alvarleg árásin var þá fær maðurinn átján mánaða fangelsi.

Páll segist ekki bara undrast dóminn heldur umfjöllun sumra fjölmiðla um hann þar sem árásin gegn lögreglumönnunum er látin liggja á milli hluta. Fyrri dómar um árásir gagnvart lögreglumönnum eru skammarlega vægir og það sendir ákveðin skilaboð út í samfélagið. Refsiramminn hafi heldur ekki þróast í takt við þróun hans í öðrum málaflokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×