Innlent

Erlendir ferðamenn þurfa fræðslu

Ferðamenn sem koma hingað til lands vita fæstir að láti þeir ekki vita af sér á ferðalögum fer af stað viðamikil leit á borð við þá sem fór í gang í gær þegar yfir 50 leitarmenn leituðu þýsks ferðalangs á Vestfjörðum. Sigurgeir Guðmundsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir ekki hægt að setja verðmiða á leit samanborið við þá sem átti sér stað í gær. Hann segir flesta útlendinga ekki gera sér grein fyrir að leitað sé eftir þeim og fæstir þeirra kaupi sér sérstakar tryggingar fyrir ferðalögin til landsins. Hann sagðist vita til þess að útlendingar sem ferðast um miðhálendið að vetrarlagi séu sumir tryggðir en meirihlutinn ekki. Hann sagði Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafa tilkynningaþjónustu fyrir erlenda ferðamenn en ferðamaðurinn þarf að hafa samband við félagið og gefur upp áætlun og ef hann skilar sér ekki þá er haft samband við félagið og það leiðir hugsanlega til leitar. Hann sagði þetta hafa gefið góða raun. Hann sagði ferðamenn almennt ekki vita af þessu.  Sigurgeir segir mikilvægt að koma upplýsingum til ferðamanna um leið og þeir lenda um að veðráttan sé fljót að breytast og benda þeim á hættur landsins. Einnig er mikilvægt að láta þá vita um þjónustuna sem Landsbjörg býður upp á. Sumarið í fyrra var að sögn Sigurgeirs annasamasta sumarið síðan hann hóf björgunarstörf fyrir um tveimur áratugum. Þá segir hann einnig mikið um útköll vegna ferðamanna á eigin eða bílaleigubílum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×