Lífið

Tíu milljónir eintaka komnar út

Milljónir aðdáenda Harrys Potter víðs vegar um heiminn biðu spenntir þegar nýjast bókin, Harry Potter and the Half-Blood Prince, var gefin út á miðnætti í gær. Búið er að gefa út um 10 milljónir eintaka.  Í New York, Ástralíu og alls staðar þar á milli biðu spenntir aðdáendur þegar nýjasta bókin um galdrastrákinn kom út á miðnætti. Mest var líklega gert úr þessum viðburði í New York en þar var talið niður fyrir framan Barnes & Nobles bókabúðina á Manhattan. Meira en 10 milljónir eintaka verða gefnar út af nýjustu bókinni. Íslenskir aðdáendur voru ekki síður spenntir en fjöldinn allur af fólki beið í röð við Mál og menningu á Laugaveginum í gærkvöld eftir því að byrjað yrði að selja Harry Potter bókina. Ekki leiddist mönnum biðin því boðið var upp á limbó, Harry Potter pylsur og skuggalega galdradrykki í ýmsum litum. Alls seldust um 350 eintök af bókinni í Reykjavík í nótt en vinsældir bókarinnar hafa aldrei verið eins miklar og nú. Yfir 270 milljón eintök á 62 tungumálum af Harry Potter bókum hafa verið seld. J.K. Rowling, höfundur bókanna, er nú orðin ríkasta kona Bretlands en samkvæmt Forbes-tímaritinu eru eignir hennar metnar á einn milljarð punda eða 114 milljarða íslenskra króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.