Innlent

Vill banna auglýsingar í kringum barnatíma

Umboðsmaður barna telur rétt að banna auglýsingar í kringum barnatíma í sjónvarpinu. Fram hafa komið auglýsingar sem hann telur brjóta í bága við lög, og aðrar sem eru á mörkum þess siðlega. Auglýsendum ber samkvæmt lögum að sýna varkárni vegna trúgirni barna.

Auglýsingar sem beinast beint að börnum hafa orðið sífellt algengari undanfarin ár. Umboðsmaður barna segir að af og til komi fram auglýsingar, sem ganga svo langt að þær hljóti að brjóta í bága við útvarpslög og lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.

Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna, segir að auglýsindum beri að sýna varkárni vegna trúgirni barna. Auglýsingar megi heldur ekki vera settar fram með þeim hætti að börn reyni að fá aðra til að kaupa eitthvað.

Ingibjörg hefur efnt til samstarfs við Neytendastofu, Heimili og skóla, og talsmann neytenda um hvernig best sé að bregðast við, og til að vekja umræðu. Hún vildi ekki benda á neina eina auglýsingu, sem teldist sérstaklega slæm. Ingibjörg segist frekar vilja skoða möguleika á að setja á reglur, líkt og þær sem gilda í Noregi og Svíþjóð varðandi auglýsingar, en þær banna að auglýst sé fyrir og eftir efni sem sérstaklega er ætlað börnum.

Öflug, erlend fyrirtæki nýta sér sálfræðirannsóknir á því hvernig auðveldast er að fá börnin til að suða um hitt og þetta. Komið hefur í ljós að minnst 20% verslunar á vörum fyrir börn tengjast óskum þeirra um að eignast þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×