Innlent

Aðgerðir vegna COX-2 hemla

Lyfjastofnun Evrópu hefur tilkynnt aðgerðir vegna lyfjaflokksins COX-2 hemla sem eiga einnig við á Íslandi. Hér á landi eru fjögur lyf á markaði sem tilheyra þessum flokki: Arcoxia, Celebra Dynastat og Bextra samkvæmt fréttatilkynningu frá Lyfjastofnun. Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu hefur farið yfir tiltæk gögn og komist að þeirri niðurstöðu að aukin hætta á hjarta- og æðaáföllum fylgir notkun allra lyfja af flokki COX-2 hemla. Samband virðist vera á milli meðferðartíma og skammtastærðar lyfjanna og hættu á aukaverkunum tengdum hjarta- og æðakerfi. Þá hafa verið gerðar öryggisráðstafanir varðandi COX-2 hemla á Evrópska efnahagssvæðinu og verða þeir ekki notaðir hjá sjúklingum með kransæðasjúkdóm eða hjá þeim sem hafa fengið heilablóðfall. Þá er bent á að læknar þurfi að sýna varúð við ávísun COX-2 hemla til sjúklinga með áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma eins og t.d. háþrýsting, hækkað kólesteról í blóði, sykursýki og reykingar. Þetta á einnig við um sjúklinga með æðakölkun í útlimum. Jafnframt skal leitast við að halda skömmtum og meðferðartíma í lágmarki. Í tilkynningunni segir enn fremur að rétt þyki að grípa til þessara aðgerða nú en endanleg niðurstaða sérfræðinganefndar Lyfjamálastofnunar Evrópu varðandi þessi lyf sé væntanleg í lok apríl 2005. Sérfræðinganefndin hafi ályktað að frekari rannsókna væri þörf til að meta öryggi lyfjaflokksins á hjarta og æðar og að ljúka bæri þeim rannsóknum sem hafnar væru. Að endingu segir: „Lyfjastofnun hvetur fólk til að hafa eftirfarandi í huga: Hætta á aukaverkunum er ekki svo mikil að það sé nauðsynlegt að stöðva lyfjameðferðina strax. Rétt er að hafa samband við lækni til að ræða hvort hætta skuli lyfjameðferðinni eða halda henni áfram. Sérstaklega er brýnt að sjúklingar sem fengið hafa hjartaáfall, heilablóðfall eða hafa aukna áhættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóm vegna sykursýki, of mikils kólesteróls í blóði, of hás blóðþrýstingi eða reykinga ræði við lækni.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×