Lífið

Spilar indverska Bhangra tónlist

Hljómsveitin DCS, sem telur níu breska hljóðfæraleikara sem eiga allir indverska foreldra, heldur tónleika á skemmtistaðnum Nasa á föstudagskvöld í tilefni af Vetrarhátíð Reykjavíkur. DCS hefur unnið síðustu 20 ár við að gera sína eigin Bhangra tónlist, sem varð til sem hluti af uppskeruhátíðarhöldum í Punjab héraði á Indlandi fyrir nær 200 árum. Á níunda áratugnum fór hljómsveitin að blanda saman hefðbundnum indverskum ásláttar- og strengjahljóðfærum við nýtískulegri vestræn hljóðfæri eins og rafmagnsgítara og plötusnúðagræjur. Textarnir eru sungnir bæði á punjabi, hindí, og á ensku og fjalla langflestir um konur, dans og skemmtanir. Undanfarin hefur hljómsveitin haldið tónleika vítt og breitt um Evrópu sem hafa vakið mikla lukku. Hefur hún hlotið mörg tónlistarverðlaun og gefið út fjölmargar plötur, þar á meðal Old Skool / Noo skool= DCS flava sem nýverið kom út. Sif Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Vetrarhátíðarinnar, sá hljómsveitina á árlegri heimstónlistarhátíð í Osló í fyrra og hreinlega varð að fá hana hingað til lands. "Þeir eru alveg rosalega flottir og mjög lifandi á sviði," segir Sif. "Þeir kenna manni spor og fljótt eru allir farnir að taka þátt í indverskum handahreyfingum. Ef Norðmenn verða dansfífl við þetta hljóta Íslendingar að verða það líka." Tónleikarnir hefjast klukkan 22.00 og er aðgangur ókeypis. Dúettinn Súkkat hitar upp og gleðisveitin Bermúda mun síðan taka við af DCS og halda uppi fjörinu fram á rauða nótt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.