Innlent

500 manna slysavarnaæfing

Um 500 manns koma að Landsæfingu slysvarnafélagsins Landsbjargar 2005 sem hófst milli klukkan fjögur og fimm í morgun á Egilsstöðum og nágrenni. Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitarmenn af landinu öllu vinna um 50 björgunarverkefni alls af ýmsum toga, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Sett eru á svið einföld leitarverkefni, flókin fjallabjörgunarverkefni, stórslys, flugslys, rútuslys og einnig sjóverkefni. Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, er ánægður með hvernig til hefur tekist. Aðstæður eru góðar og veðrið fallegt. Hann segir björgunarsveitirnar í góðri æfingu en þetta sé til að þjálfa mannskapinn enn betur og skerpa á stjórnunarþættinum. Jón segir að íbúar fyrir austan hljóti að verða varir við þessa miklu æfingu og alla björgunarsveitarmennina og starfsmennina sem að henni koma, en vonandi séu þeir hvergi til trafala.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×