Lífið

Alþjóðlegi blóðgjafadagurinn

Alþjóðlegi blóðgjafadagurinn er haldinn hátíðlegur 14. júní ár hvert. Dagurinn er haldinn til heiðurs blóðgjöfum um heim allan sem gefa af óeigingirni blóð til sjúkra. Dagurinn 14. júní var valinn en það er afmælisdagur nóbelverðlaunahafans Karl Landsteiner en hann uppgötvaði ABO-blóðflokkakerfið árið 1900. Að alþjóðlega blóðgjafadeginum standa WHO, Alþjóða Rauði krossinn, Alþjóðasamtök blóðgjafafélaga og Alþjóðasamtök blóðgjafar. Að baki þessara samtaka eru 192 aðildarríki Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, 181 landssamtök Rauða krossins, 50 landssamtök blóðgjafafélaga og þúsundir sérfræðinga um blóðgjafir. Hefð hefur skapast á Blóðgjafadeginum að blómabændur gefi blóðgjöfum rauða rós í tilefni dagsins. Einnig verða grillaðar pylsur í bakgarði Blóðbankans og munu félagar í Blóðgjafafélaginu standa við grillið. Og Vodafone mun taka þátt í deginum með Blóðbankanum með uppákomu í garðinum. Áhugasömum verður boðið að kynna sér starfsemi Blóðbankans og Blóðgjafa félagsins þennan dag. Mun garðveislan standa frá kl. 11-15. Blóðbankinn við Barónsstíg þarf 70 blóðgjafa á dag til að sjá fyrir eftirspurn. Sumartíminn reynist starfsemi Blóðbankans gjarnan erfið þar sem ferðalög eru tíðari og blóðgjafar síður heima við en annars. Það er því starfseminni dýrmætt þegar blóðgjafar muna eftir að gefa blóð áður en haldið er í fríið því Blóðbankinn þarf 70 blóðgjafa á dag allan ársins hring.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.