Erlent

Myndband birt af Saddam Hussein

Myndband þar sem Saddam Hussein sést í yfirheyrslum hefur nú verið gefið út af dómstólnum sem var sérstaklega skipaður til að fjalla um mál hans. Í myndbandinu sést hvar Saddam er spurður út í voðaverk á borð við Anfal-fjöldamorðin á Kúrdum. Ekki hefur enn verið gefið upp hvar eða hvenær upptakan er gerð en þetta er í fyrsta skipti sem Saddam sést síðan hann kom fyrir réttinn í fyrsta sinn síðastliðið sumar. Lögmaður Saddams hefur lýst því yfir að einræðisherrann fyrrverandi vilji að réttað verði yfir honum í Svíþjóð og bætti því við að samkvæmt írösku stjórnarskránni væri Saddam friðhelgur fyrir hvers kyns ákærum. Aðspurður um ástæðurnar fyrir því af hverju Svíþjóð væri fyrsti kostur sagði lögmaðurinn að aðstæður væru slíkar í Írak að ekki væri hægt að búast við sanngjörnum réttarhöldum, líklegra væri að Saddam fengi sanngjarna málsmeðferð í Svíþjóð. Ákæruatriðin gegn Saddam eru fjölmörg, þar á meðal morð á pólitískum andstæðingum, efnavopnaárásir á Kúrda og innrás í Kúveit og spá flestir stjórnmálaskýrendur því að hann verði dæmdur til dauða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×