Innlent

Líkamshitinn kominn niður í 34°

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti mann sem hrapaði í hlíðum Esjunnar í dag. Tilkynnt var um slysið laust fyrir klukkan tvö. Maðurinn, sem var einn á ferð, hrapaði í hömrunum við Þverfellshorn sem er algengasta gönguleiðin á fjallið. Halldór Halldórsson, staðgengill slökkviliðsstjóra, segir ríflega klukkutíma hafa liðið áður en vegfarendur komu að honum.  Menn frá Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fóru á vettvang eftir að tilkynnt var um slysið laust fyrir klukkan 14 og björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitinni Kili voru þeim til aðstoðar. Reynt var að fara á öflugum jeppa að slysstaðnum en hann komst ekki langt. Það var því fljótlega ljóst að kalla þyrfti til þyrlu Landhelgisgæslunnar. Sigmaður seig niður að manninum og dólaði þyrlan við fjallið á meðan en sótti síðan hinn slasaða og sigmanninn. Reyndar bilaði aðalspilið en vel gekk að ná mönnunum með varaspilinu. Flogið var með hinn slasaða rakleitt á Landspítalann í Fossvogi. Að sögn sérfræðings á slysadeild er maðurinn enn í rannsókn en við fyrstu sýn virðist sem hann sé ekki alvarlega slasaður. Hann er þó með áverka víða um líkamann. Maðurinn var hins vegar orðinn kaldur og hrakinn og líkamshiti hans kominn niður í 34 gráður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×