Erlent

Leynileg útvarpsstöð talíbana

Skæruliðar talíbana í Afganistan hafa hafið útvarpssendingar um leynilega útvarpsstöð. Yfirmaður bandarískra hersveita í landinu segir að talíbanar séu ennþá hættulegir. Útvarpsstöð talíbana útvarpar sálmasöng og áróðri gegn ríkisstjórninni tvisvar á dag, snemma morguns og á síðkvöldum. Talsmaður skæruliðanna segir að útvarpsstöðin sé færanleg og er líklegt að hún sé höfð um borð í dulbúnum útsendingarbíl. Yfirvöld í Afganistan segja að mjög hafi fjarað undan talíbönum síðustu misserin og þeir eigi nú erfitt með að fá nýja liðsmenn og fjármagn til þess að halda áfram baráttu sinni. Yfirvöld segja að útvarpsstöðin sé merki um örvæntingu þeirra. Yfirmaður bandarískra hersveita í landinu er sama sinnis. Hann segir að talíbanar séu þó enn hættulegt afl í landinu. Óvíst er hvort talíbanar fá að hafa útvarpsstöð sína óáreitta lengi. Þótt hún sé færanleg hafa Bandaríkjamenn tæknibúnað sem gerir þeim auðvelt að miða hana út. Svo er einfaldlega hægt að sleppa sprengju úr mikilli hæð sem flýgur niður útsendingargeislann og sprengir útvarpsstöðina í tætlur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×