Lífið

Vatni hleypt á nýja gosbrunninn

Vatni var hleypt á nýjan gosbrunn í Tjörninni í Hljómskálagarðinum klukkan hálfellefu í morgun. Hann er nokkru minni en sá gamli en mun síður úða vatni yfir vegfarendur þegar hreyfir vind. Gosbrunnurinn sem var á þessum stað í aldarfjórðung var orðinn gamall og lúinn og það borgaði sig ekki lengur að reyna að laga hann, að sögn Þórólfs Jónssonar, garðyrkjustjóra Reykjavíkur. Gamli gosbrunnurinn var settur upp skömmu fyrir 1980 en hann var gjöf bandaríska sendiherrans sem hér starfaði á þeim tíma. Eftir að ljóst varð að sá gosbrunnur myndi ekki gjósa oftar voru því nokkrar vangaveltur um hvort borgin ætti að festa kaup á nýjum gosbrunni eða ekki. Það varð úr að kaupa nýjan og sá sprautaði vatni í fyrsta sinn í morgun. Þórólfur segist ekki viss um hvort allir séu sammála um að hann sé tilkomumikill en honum finnst hann alveg nógu stór. Hann segir það líka hafa verið vandamál hversu oft þurfti að slökkva á honum þegar hreyfði vind. „Þessi gosbrunnur er nokkru minni og vonandi verður þá hægt að hafa hann miklu meira í gangi,“ segir Þórólfur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.