Innlent

Selasetur stofnað á Hvammstanga

Selasetur Íslands var stofnað á Hvammstanga í gær, hið fyrsta sinnar tegundar hérlendis. Hugmyndin er að efla ferðaþjónustu í Húnaþingi og sérstaklega á Vatnsnesi en aðstandendur fullyrða að nánast hvergi á landi séu selalátur eins aðgengileg og við Vatnsnes. Sigrún Valdimarsdóttir, formaður Ferðamálafélags Vestur-Húnaþings, segir að í kringum Vatnsnesið sé mikið af sel og áhugi sé á að virkja hann sem auðlind í ferðaþjónustunni í Vestur-Húnvatnssýslu. Fjölmargir erlendir ferðamenn vilji ólmir skoða seli og því vilji ferðamálafélagið vinna að því veita þeim meiri upplýsingar. Það vilji standa vel að þessu þannig að hægt verði að stýra umferðinni um Vatnsnes því selalátrin séu viðkvæm í umgengni. Stefnt er að því að opna Selasetur Íslands á þessu ári í gamla verslunarhúsi Sigurðar Pálmasonar á Hvammstanga. Þá hefur Vatnsneshringurinn, þjóðvegur 711, fengið markaðsheitið Perluslóð. Sigrún segir að árlega hafi húsfreyjur á Vatnsnesi verið með mjög vinsælt fjöruhlaðborð þar sem boðið hafi verið upp á ýmist góðgæti. Þetta hafi spunnist út frá því, en konurnar hafi verið mjög virkar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×