Lífið

Uppselt á rúmri mínútu

Miðar á nokkurs konar leynitónleika hljómsveitarinnar Sigur Rósar í Hollywood seldust upp á einni mínútu og sex sekúndum. Nota þurfti sérstakt lykilorð til að kaupa miðana til að koma í veg fyrir að miðabraskarar kæmust í þá. Hljómsveitin er nú á tónleikaferð um Evrópu, Japan, Ástralíu og Bandaríkin en ákvað að halda litla aukatónleika í Hollywood fyrir sérstaka aðdáendur. Fimm hundruð og fimmtíu miðar voru í boði og ruku þeir út eins og fyrr segir. Nýhafin hljómleikaför sveitarinnar er sú fyrsta í tvö ár og hófst hún í Glasgow á föstudag þar sem tónleikarnir fengu fimm stjörnur af fimm mögulegum í skoskum fjölmiðlum. Og það sama gerðist í enskum fjölmiðlum eftir tónleika sveitarinnar í London á sunnudagskvöld þar sem meðal annars segir að nýju lög sveitarinnar séu svo falleg að fólk missi andann. Ný plata sveitarinnar, sem hlotið hefur nafnið Takk, kemur út í haust.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.