Lífið

Silence of the Grave kemur út í vor

Skáldsagan Grafarþögn eftir Arnald Indriðason kemur út í Bretlandi í vor. Þetta er ekki fyrsta bókin sem Arnaldur gefur út á breskum markaði því í fyrrasumar gaf hann út Mýrina hjá útgáfunni Harvill Press. Sú bók fékk mikið lof gagnrýnenda og hældi jafnframt metsöluhöfundurinn Val McDermid bókinni í The Daily Telegraph og sagði hana heillandi innsýn inn í ókunnan heim. Edda er útgefandi Arnaldar hérlendis og er Dröfn Þórisdóttir hjá Eddu Útgáfu bjartsýn á það að Grafarþögn fái góðar viðtökur í Bretlandi líkt og Mýrin. "Við erum að sjálfsögðu bjartsýn á viðtökurnar miðað við gengi Arnaldar í Bretlandi sem og annars staðar en hann hefur verið gefinn út í 22 löndum," sagði hún. Að sögn Drafnar mun bókin kallast Silence of the Grave á ensku. Grafarþögn kom út í Danmörku í janúar á þessu ári og fékk þar frábærar viðtökur. Eins og fram kemur á heimasíðu Eddu Útgáfu gaf gagnrýnandinn Keld Nissen bókinni sex stjörnur af sex mögulegum og sagði Arnald flétta sögur verksins saman af list. "Það er ekki fyrr en á allra síðustu síðunum að lesandinn fær lausn gátunnar, það er vel gert," segir Nissen í gagnrýninni. Einnig segir hann frásögnina lágværa og hryllingssögurnar nísta hjarta lesandans. Í mars síðastliðnum kom bókin út í Þýskalandi þar sem hún hlaut einróma lof gagnrýnenda og komst upp í sjöunda sæti metsölulistans. Engin íslensk bók eða höfundur hefur áður náð svo hátt á þýska listanum. Í Þýskalandi hafa selst yfir þrjúhundruð þúsund eintök af bókum Arnaldar sem er einstakur árangur fyrir íslenska skáldsögu. Einnig hefur hún verið seld til Bandaríkjanna, Hollands, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands, Tékklands og nú til Bretlands.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.