Innlent

Snyrtilegt vélaverkstæði

Vélaverkstæðið á Kárahnjúkum er einstaklega snyrtilegt, svo mjög að eftir er tekið. Hvergi er olíublett, hvað þá rusl eða skít á gólfum eða veggjum. Allur frágangur er til fyrirmyndar, verkfærum er raðað í röð og reglu í fallegar heimasmíðaðar hillur eða þau hengd upp á nagla á veggjum. Jamal Shah frá Pakistan er yfirmaður Vélaverkstæðisins en hann hefur starfað hjá Impregilo síðustu 20 árin. Hann er pakistanskur að uppruna, ættaður frá borg um 100 kílómetra frá Islamabad og þar býr fjölskylda hans nú. Jamal Shah hefur farið að heiman og starfað nokkrum sinnum erlendis, ekki bara hjá Impregilo heldur líka hjá öðrum fyrirtækjum. Hann hefur próf úr tækniskóla og fékk vinnu hjá Impregilo strax að námi loknu. Jamal hefur starfað á Íslandi í eitt ár. Hann er ánægður í starfinu og kann vel við fyrirtækið. "Þetta er gott fyrirtæki. Það sér manni fyrir öllu. Við treystum fyrirtækinu og það treystir okkur," segir hann. Jamal Shah á fimm börn segist tala á hverjum degi við fjölskyldu sína í síma. Hann fái líka að fara heim þegar hann vilji en það sé langt flug og taki tvo daga, fyrsta að fljúga til London og svo taki flugið frá London til Islamabad níu klukkutíma. Heima í Pakistan segir hann að sé gott atvinnuástand en launin úr starfinu hérna sendi hann fjölskyldunni heima.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×