Innlent

Kaupmáttarauking í fyrra aðeins 2%

Kaupmáttaraukningin hér á landi í fyrra var aðeins tvö prósent, sem er langt undir meðaltali síðastliðinna tíu ára. Þá var verðbólgan talsvert yfir meðaltali í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Launavísitalan hér á landi hækkaði um sex prósent í fyrra samkvæmt útreikningum Hagstofunnar og hefði kaupmáttaraukningin numið sömu upphæð ef verðbólga upp á fjögur prósent hefði ekki dregist frá þannig að útkoman varð tveggja prósenta kaupmáttaraukning. Aukningin var þrjú prósent í hitteðfyrra og fjögur árið þar áður en meðaltal síðustu tíu ára er 3,4 prósenta kaupmáttaraukning á ári. Að vísu spáir greiningardeild Íslandsbanka að hún verði meiri í ár en í fyrra. Verðbólga hér á landi frá því í desember árið 2003 til sama mánaðar í fyrra var talsvert yfir meðalverðbólgu í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Meðaltalið var 2,2 prósent á öllu EES-svæðinu, 2,4 prósent á svæði evrunnar en 2,9 prósent hér á landi, samkvæmt öðru reiknilíkani en notað er hér innanlands og það skýrir að í þessum samanburði hafi verðbólgan hér verið þrjú en ekki fjögur prósent. Verðbólga var þó meiri í ellefu löndum en hér, en langmest var hún í Lettlandi, eða 7,4 prósent. Minnst var verðbólgan hins vegar í Finnlandi þar sem hún var vart mælanleg. Þá var hún innan við eitt prósent í Svíþjóð, eitt prósent í Danmörku og rúmlega eitt prósent í Noregi en tæp þrjú prósent hér á landi, eins og áður sagði, samkvæmt þessari reikniformúlu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×