Innlent

Evrópuverkefni tryggðir peningar

Búið er að ganga frá fjármögnun verkefnis um sjúkraflutninga og -þjónustu í dreifðari byggðum, en fjármögnunin var forsenda þess að Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins styrkti verkefnið um tæpar 55 milljónir króna fram til ársins 2007. Ísland leiðir verkefnið sem er til tveggja og hálfs árs, en að auki taka þátt nyrðri byggðir í Svíþjóð og Suðureyjar Skotlands. Hildigunnur Svavarsdóttir, skólastjóri Sjúkraflutningaskólans, segir að gengið hafi verið frá fjármögnuninni á fundi í gær, en til stendur að kynna verkefnið nánar í vikulokin. "En við erum í góðum málum og ætlum okkur að fara af stað með verkefnið," segir hún og bætti við að fyrsti fundur yrði haldinn von bráðar í Skotlandi. Norðurslóðaáætlunin styrkir verkefnið að sextíu prósentum, en Fjórðungssjúkrahús Akureyrar tryggir fjármögnun þess sem upp á vantar. Þá hafa náðst samningar við Slökkvilið Akureyrar um vinnuframlag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×