Innlent

Segir mörg brýn verkefni bíða

Kristín Ingólfsdóttir, nýkjörinn rektor Háskóla Íslands, segir mörg brýn verkefni bíða sín - en henni hafi vissulega fundist þetta hálfóraunverulegt þegar hún vaknaði í morgun. Skrifstofa Kristínar var full af blómum þegar fréttastofa Stöðvar 2 leit við hjá henni í dag. Hún var að vonum ánægð með sigurinn en frekar mjótt var á mununum. Ágúst Einarsson, mótframbjóðandi hennar, fékk tæp 47 prósent atkvæða og Kristín rúm 53 prósent. En hvernig er að vakna að morgni, fyrsti kvenrektor skólans og sá fyrsti úr lyfjafræðideild? Kristín segir það hafa verið svolítið óraunverulegt en ákaflega ánægjulegt. Aðdragandinn hafi verið nokkuð langur en auðvitað sé þetta eitlítið óraunverulegt til að byrja með. Kristín tekur við embættinu 1. júlí og er þegar farin að huga að fyrstu verkefnunum. Hún segist einnig farin að huga að því að ljúka sinni kennslu og því að leiðbeina nemendum sínum. Þá hlakki hún til að eiga gott samstarf við Pál Skúlason, fráfarandi rektor, sem hafi lýst sig reiðubúinn til að koma henni inn í mál áður en skiptin verða, en mikilvægt sé að hafa þennan tíma til þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×