Erlent

Hömlulaus ærsl á Neverland

Fyrrverandi húshjálp á búgarði Michaels Jacksons, Neverland, sagði frá því fyrir rétti að hún hefði kallað búgarðinn "unaðseyju Gosa" vegna þess að börn fengu að ærslast þar hömlulaust án eftirlits fullorðinna. Húshjálpin, Kiki Fournier, bar vitni í máli Jacksons á fimmtudag, en hann er ákærður fyrir að hafa leitað kynferðislega á ungling. Hún sagðist ítrekað hafa séð börn láta þannig að álykta mátti að þau væru undir áhrifum áfengis. Fournier, sem starfaði á Neverland á tímabilinu 1991-2003, nefndi í þessu sambandi níu drengi, sem allir voru á aldrinum tíu til fjórtán ára. Þar á meðal var barnastjarnan Macaulay Culkin sem dvaldi mikið á Neverland. Fournier sagðist þó aldrei hafa orðið vitni að því að Jackson gæfi börnum áfengi. Hún lýsti Jackson sem mjög undanlátssömum gestgjafa og gaf í skyn að börnin hefðu fært sér undanlátssemi hans í nyt. Fournier sagði drenginn, á hvers vitnisburði ákæran gegn Jackson er byggð, og bróður hans hafa gengið berserksgang í herbergjum sínum áður en fjölskylda þeirra flutti af búgarðinum fyrir tveimur árum. Verjendur Jacksons segja drenginn hafa skáldað upp söguna um kynferðislegu áreitnina í hefndarskyni, en fjölskylda hans hefði gert sér vonir um að geta búið til langframa á Neverland þegar henni var gert að flytja þaðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×