Innlent

Neitun KEA veldur vonbrigðum

"Samfélagið gerir auknar kröfur um samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og vonbrigði þegar atvinnulífið fylgir ekki með," segir Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu. Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, hefur sagt starfi sínu lausu þar sem stjórn félagsins samþykkti ekki að hann tæki sér fæðingarorlof. Andri og kona hans eiga von á tvíburum en þau eiga fyrir fjögur börn. "Við höfum bundið miklar vonir við að staða kynjanna á vinnumarkaði jafnist og fæðingarorlofskerfið er liður í því," segir Margrét María. "Þessi afstaða veldur því vonbrigðum." Margrét María segist hafa orðið vör við mikinn áhuga á málinu og að margir hafi haft samband við Jafnréttistofu vegna þess. "Umræðan er af hinu góða, hún er þörf og opinberar fordóma," segir hún. Margrét María segir ekki liggja fyrir hver næstu skref Jafnréttisstofu verði. "Við eigum eftir að ræða hvað við teljum rétt að gera í stöðunni," segir hún. Gunnar Páll Pálsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, telur að um tíu feður hafi á síðustu tólf mánuðum haft samband við félagið vegna vandræða við töku fæðingarorlofs. "Verið er að vinna í nokkrum málum þar sem mönnum var sagt upp störfum, en það er óheimilt eftir að taka fæðingarorlofs er tilkynnt," segir Gunnar Páll. Hann segir allan gang á því hvernig fyrirtæki bregðist við athugasemdum félagsins. "Oft er gengið frá sátt en nokkur mál munu væntanlega enda fyrir dómstólum." Gunnar Páll lýsir áhyggjum af stöðu mála en segist þó telja hana stafa af vanda við innleiðingu nýs fæðingarorlofskerfis. "Það tekur vinnumarkaðinn nokkur ár að átta sig á nýjum leikreglum, einkum vegna þess að nú getur liðið mun lengri tími frá fæðingu barns þangað til orlofið er tekið." Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir sambandinu hafa borist fregnir af ýmsum vandkvæðum foreldra við að taka fæðingarorlof. Þau mál hafi hins vegar nær undantekningalaust leyst farsællega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×