Erlent

130 látnir eftir flugslysið í Íran

Að minnsta kosti eitt hundrað og þrjátíu manns fórust í flugslysinu í Íran í dag þegar herflugvél skall á íbúðabyggingu í Teheran, höfuðborg landsins. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar en fjölmargir eru slasaðir.

Enginn komst lífs þegar flugvélin, með níutíu og fjóra innanborðs, brotlenti á íbúðabyggingunni í suðurhluta Teherans. Að sögn yfirvalda þar í landi tilkynntu flugmenn vélarinnar, sem var af gerðinni C-130, um bilun skömmu eftir flugtak frá Mehrabad-flugvellinum í Teheran. Sneru flugmennirnir við og ætluðu að nauðlenda á flugvellinum sem mistókst og brotlenti hún á tíu hæða fjölbýlishúsi. Mikil sprenging varð þegar flugvélin skall á byggingunni en borgarstjóri Teheran segir að minnsta kosti tuttugu og fimm manns hafa látist í byggingunni, yfir fimmtán séu slasaðir, þar af marigr alvarlega, og óttast yfirvöld að tala látinna eigi eftir að hækka á næstunni.

Að sögn írönsku fréttastofunnar IRNA voru flestir farþeganna fréttamenn sem ætluðu að fylgjast með heræfingum í nágrenni hafnarborgarinnar Bandar Abbas í suðurhluta Írans. Í hverfinu þar sem vélin fórst búa margir hermenn ásamt fjölskyldum sínum og fljúga flugvélar gjarnan þar yfir í flugtaki og í lendingu. Mikill eldur blossaði upp og varð byggingin alelda samstundis sem gerði björgunarmönnum erfiðara fyrir.

Flugslys eru tíð í landinu en síðasta stórslys varð þegar herflugvél með tæplega þrjú hundruð hermenn innanborðs fórst árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×