Innlent

Starfsfólk vantar á elliheimili

Þrátt fyrir að á annað hundrað manns sé á biðlista eftir að komast inn á dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund, er á annan tug plássa laus á heimilinu. Ekki er hægt að opna dyrnar fyrir nýju heimilisfólki vegna manneklu.   Enn gengur efiðlega að ráða fólk til starfa á elliheimili, rétt eins og barnaheimili. Á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund er hefur ekki tekist að ráða í um tíu stöðugildi. Ástandið er þó mun betra en það var í byrjun september þegar vantaði í um tuttugu stöðugildi.   Júlíus Rafnsson, framkvæmdastjóri hjá Grund, segir að laus pláss séu hjá elliheimilinu en ekki sé hægt að ráðstafa þeim þar sem enn vantar í stöðugildi. Staðan á starfsfólki hafi þó lagast hjá þeim frá því sem var í byrjun síðasta mánaðar.   Júlíus segir að eftir að framhaldsskólarnir fóru að byrja fyrr hafi borið mikið á erfiðleikum í lok ágúst þar sem starfsmenn væru þá ekki allir búnir með sín sumarleyfi. Hann segir þó ástandið mun erfiðara nú en undanfarin ár. Stjórnendur á Grund greiddu hluta starfsmanna aukagreiðslu á þessum erfiðu tímum og fór greiðslan til þeirra sem mest hefur mætt á í manneklunni. Auðveldara virðist vera að fá útlendinga til starfa á elliheimilum og starfa margir í hliðarstörfum svo sem í eldhúsi, þvottahúsi og bítibúrum. Júlíus segir að reynt sé að ráða ekki fólk í umönnum sem ekki getur gert sig þokkalega skiljanlegt á íslensku. En eru launin hreinlega ekki of lág til þess að fá fólk til starfa og manna öll stöðugildi.   Júlíus segist vel geta fallist á það að launin þurfi að vera hærri. Starfið sé krefjandi og starfsfólkið þurfi að gefa mikið af sér og því þyrfti að greiða hærri laun.   Ástandið á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund er ekkert einsdæmi. Talið er að á milli 350 og 400 eldri borgarar séu í brýnni þörf fyrir að komast á hjúkrunarheimili. Það er aðeins hluti þeirra sem eru á biðlista.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×