Innlent

Samfylkingin vill fækka ráðuneytum

Fækkun ráðuneyta úr þrettán í níu og lög um óháðar rannsóknarnefndir eru meðal stefnumála Samfylkingarinnar í vetur en þau voru kynnt í dag.   Málin sem Samfylkingin leggur fram á Alþingi eru undir yfirskriftinni Stöðugleiki - Jafnræði - Stjórnfesta. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að stöðugleikinn mælist ekki bara í vöxtum, gengi og verðbólgu. Misskipting lífskjara sé mikil ógnun við stöðugleikann. Formaðurinn segir að lífeyrsþegar hafi dregist aftur úr öðrum í lífskjörum og því sé lagt til að það verði komið upp afkomutryggingu fyrir lífeyrisþega.   Samfylkingin ætlar einnig að leggja fram frumvarp til laga um óháðar rannsóknarnefndir. Flokkurinn telur að þetta úrræði þurfi að vera til hér á landi en það sé til í löndum í kring.   Fækkun ráðuneyta er eitt stefnumála Samfylkingarinnar en lagt er til að ráðuneytum verði fækkað úr þrettán í níu. Einnig ætlar Samfylkingin að leggja fram þingsályktun um að endurskoða fyrirkomulag á skipun embættismanna og aðskilja pólítísk störf frá faglegum embættum. Ingibjörg var spurð hvernig henni litist á niðurstöðu Þjóðarpúls Gallups þar sem Sjálfstæðisflokkurinn bætir miklu fylgi við sig. Hún telur að foryustuskipti í Sjálfstæðisflokknum um miðjan mánuðinn skýri að einhverju leyti þessa niðurstöðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×