Innlent

Hlúð að verkum Samúels í Selárdal

Selárdalur er einn svonefndra Ketildala í Arnarfirði sunnanverðum. Í eina tíð var dalurinn þéttbyggður fólki en tekið var að fækka þegar Samúel Jónsson bjó að Brautarholti í mynni dalsins, þaðan sem tilkomumikil sýn er yfir fjörðinn að Lokinhömrum og Hrafnabjörgum. Samúel var kominn á efri ár þegar hann réðist í að reisa kirkju og listasafn á jörð sinni, auk listaverka. Norðanáttin á greiða leið inn í dalsmynnið og á henni hafa hús og verk Samúels fengið að kenna. Fyrir sjö árum var félag um endurreisn listasafns Samúels stofnað en auk þess að stuðla að viðgerðum og viðhaldi listaverkanna er því ætlað að kynna verk Samúels innan lands og utan. Á dögunum bárust félaginu tveir styrkir, annar úr Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur og hinn úr Þjóðhátíðarsjóði, og renna peningarnir í viðgerðir og viðhald. Ólafur J. Engilbertsson sagnfræðingur situr í stjórn félagsins og segir hann ástand verkanna hafa verið mjög slæmt þegar hafist var handa við viðgerðirnar. Þýski myndhöggvarinn Gerhard König var fenginn til verksins og er hann væntanlegur vestur aftur í sumar. "Það kostar um þrjár milljónir króna að gera við listaverkin," segir Ólafur en hann og aðrir félagsmenn hafa sett sér enn háleitari markmið um framtíð Brautarholts í Selárdal. "Félagið hefur áhuga á því að gera húsið íbúðarhæft svo fræði- og listamenn geti haft þar aðsetur og haldið sýningar." Verði ráðist í það má ætla að heildarkostnaður nemi um tíu milljónum króna. Þegar hefur húsið verið lagfært að innanverðu en er þó fjarri því að vera íbúðarhæft. Landbúnaðarráðuneytið kostaði þær framkvæmdir en ráðuneytið hefur, lögum samkvæmt, formleg yfirráð yfir jörðinni. Ólafur J. Engilbertsson hefur lengi haft áhuga á Samúel í Selárdal, sögu hans og verkum. "Ég ólst upp á Vestfjörðum og frétti að þarna í dalnum væri ævintýragarður sem væri að grotna niður." Ólafur gerði heimildarmynd um Samúel með Kára Schram kvikmyndagerðarmanni og leggur nú sitt af mörkum svo verk hans varðveitist komandi kynslóðum til ánægju og yndisauka.
MYND/Vilhelm
MYND/Vilhelm
MYND/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×