Innlent

Ný reglugerð um farþegaflug

Með nýrri reglugerð eru flugfélög gerð mun ábyrgari en áður gagnvart farþegum, ef þau fella niður flug, seinka flugi eða neita farþegum um far. Reglugerðin er samevrópsk og tekur til skaðabóta vegna tafa sem farþegar verða fyrir og á Flugmálastjórn að framfylgja henni og taka við kvörtunum, ef einhverjar verða. Í þeim tilvikum sem flugfélag hefur yfirbókað verður það að semja við annan farþega um að ganga frá borði og seinka flugferðinni, eða bjóða þeim sem ekki kemst með skaðabætur, allt að 47.500 krónum eftir lengd ferðar, og greiða fyrir hann gistingu og fæði þar til hann nær næsta flugi. Auk þess á hann rétt á endurgreiðslu farmiðans, ef hann hættir við förina eða breytir um ferðamáta. Það sama á við ef seinkun verður lengri en fimm klukkustundir. Oft heyrist kvartað um litlar eða engar upplýsingar þegar tafir verða en í reglugerðinni segir að farþegar eigi rétt á hlutlausum og nákvæmum upplýsingum frá þeim sem selja eða skipuleggja ferðir. Meðal annars ber afgreiðslufólki að sýna farþega upplýsingar, annað hvort á skjá eða í útprentun. Þá skulu flugrekendur hafa auðlæsilega tilkynningu við innritunarborð þar sem flugfarþegum er gerð grein fyrir réttindum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×