Erlent

Khodorkovskí sakfelldur

Rússneskir dómstólar fundu auðkýfinginn Mikhaíl Khodorkovskí sekan um fjóra af sjö ákæruliðum en frekari dómsuppkvaðningu var frestað þar til í dag. Verjendur Khodorkovskí og stuðningsmenn segja að þeir hafi heyrt nóg til að vera fullvissir um að hinir úrskurðirnir falli á sama veg. Khodorkovskí hefur verið sakfelldur fyrir skattsvik og samsæri. Saksóknari krefst þess að hann verði dæmdur til tíu ára fangavistar. Verjendur hans segja að saksóknarar hafi ekki getað fært sönnur á nokkurn ákæruliðanna en það hafi ekkert að segja við dómsuppkvaðninguna. Margir telja réttarhöldin vera pólitískar ofsóknir Vladimirs Pútin Rússlandsforseta sem hafi þótt Khodorkovskí færa sig of langt upp á skaftið. Hundruð stuðningsmanna og andstæðinga Khodorkovskís söfnuðust fyrir utan dómshúsið á meðan dómari las upp úrskurð sinn og kom til átaka milli sumra þeirra og lögreglu. Rússnesk dagblöð segja að málið muni hafa langvarandi áhrif á þróun rússnesks réttarkerfis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×