Innlent

Síminn úr eigu ríkisins

Kaupsamningur milli ríkisins og nýrra eigenda að tæplega níutíu og níu prósentum hlutafjár í Símanum var undirritaður í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Fyrirtækið Skipti ehf. eignast hlut ríkisins en greiðsla fyrir hlutinn þarf að fara fram innan fimm virkra daga frá því að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins um kaupin liggur fyrir. Geir H. Haarde fjármálaráðherra sagði að féð sem fengist fyrir söluna yrði notað í verkefni í þágu allra landsmanna í samræmi við stjórnarsáttmála. Þar horfir hann til verkefna sem þarf að ráðast í einu sinni. Meðal verkefna sem hafa verið nefnd eru bygging hátæknisjúkrahúss og lagning Sundabrautar. Nýir eigendur þurfa einnig að uppfylla ýmis önnur skilyrði sem koma fram í söluskilmálum, meðal annars um að enginn einn einstakur aðili megi eignast stærri hlut í Símanum en 45 prósent auk þess sem bjóða þarf að minnsta kosti þrjátíu prósent af heildarhlutafé félagsins almenningi og öðrum fjárfestum til kaups, eigi síðar en undir lok ársins 2007. Fulltrúar fyrirtækjanna voru allir viðstaddir undirritunina í gær auk nokkurra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Kaupverðið skiptist í íslenskar krónur fyrir um 34,5 milljarða, um 310 milljónir evra og 125 milljónir Bandaríkjadala.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×