Innlent

Tugmilljóna leiðakerfi breytt á ný

Nýju leiðakerfi Strætó verður breytt, að sögn Bjarkar Vilhelmsdóttur stjórnarformanns fyrirtækisins. Stjórnin kom saman til fundar í gær þar sem farið var yfir fram komnar athugasemdir og kvartanir vegna nýja kerfisins. Stjórn Strætó áréttaði í samþykkt sem hún gerði á fundinum í gær þá skoðun sína að samræmt leiðakerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið "sé þýðingarmikið framfaraskref, sem geri almenningssamgöngur raunhæfan kost fyrir mun fleiri en áður. Hins vegar hefur nokkur gagnrýni komið fram á einstaka þætti þess en margir hafa einnig lýst yfir ánægju sinni með breytingarnar. Stjórnin leggur áherslu á að markvisst verði unnið úr öllum athugasemdum hið fyrsta til hagsbóta fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins," segir í samþykktinni. Þá harmar stjórnin að grípa hafi þurft til tímabundinnar þjónustuskerðingar á akstri stofnleiða en full þjónusta muni verða komin á að nýju um leið og skólar hefjast, mánudaginn 22. ágúst. Hvetur stjórnin alla starfsmenn til að halda ótrauðir áfram þrátt fyrir mikið álag við innleiðingu nýja leiðakerfisins. "Við þurfum að gefa okkur aðeins lengri tíma til að vinna markvisst úr öllum þeim athugasemdum sem hafa borist," sagði Björk eftir fundinn. "Við getum ekki tekið ákvarðanir núna um einhverjar breytingar. Við gátum ekki alveg gefið okkur tímamörk í þessum efnum. Það fer einnig eftir vaktakerfi vagnstjóra sem er til bráðabirgða til 1. október og við erum bundin af. Það er verið að skoða ýmsa möguleika." Spurð hvort breytingar yrðu gerðar á nýja leiðakerfinu svaraði Björk því játandi. Hún kvaðst vonast til að þær kæmu til framkvæmda mun fyrr heldur en um áramót. Kostnaður Strætó bs. við þær breytingar á leiðakerfinu sem gengu í gildi í síðasta mánuði nema 25 milljónum króna, að sögn Ásgeirs Eiríkssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Þá er ótalinn kostnaður viðkomandi sveitarfélaga vegna tilfærslna á biðstöðvum og skiptistöðvum vegna breytinganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×