Innlent

Kallar eftir ávítum og sekt

Sigríður Rut Júlíusdóttir er lögmaður Jóns Ólafssonar.
Sigríður Rut Júlíusdóttir er lögmaður Jóns Ólafssonar.

Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Jóns Ólafssonar at­hafna­manns, fer fram á að héraðs­dómur ávíti Hannes Hólmstein Gissur­ar­son prófessor og Heimi Örn Herberts­son lög­mann hans og ákveði þeim réttar­fars­sekt. Þetta gerir hún í greinargerð sem hún lagði fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Hannes freistar þess að fá end­ur­upp­tekna aðfarar­heim­ild hér­aðs­dóms vegna meiðyrðamáls sem hann tapaði í Bretlandi. Sigríður Rut segir í greinar­­gerð­inni að Hannes og lögmaður hans hafi með aðilaskýrslu sem þeir lögðu fyrir dóminn farið langt út fyrir heimildir sem um slíkar skýrslur gildi. Hún segir í skjal­inu að finna málflutning "auk þess sem skjalið inniheldur áfram­hald­andi refsi­verð meið­­yrði, róg­burð og brigsl í garð varn­ar­aðila og dreif­ingu æru­meið­­inga".

Sigríður Rut bendir á að Íslendingar séu aðil­ar að Lugano-samn­ing­num og framvinda málsins því háð ákvæðum hans og óheimilt að fjalla efnis­lega um breska dóminn. Í greinargerðinni er því mót­mælt að falist geti sönnunar­færsla um sannleiksgildi orða í að leggja fyrir dóminn sams konar um­mæli annarra. Þá er bent á að hér hafi menn verið dæmdir fyrir meiðyrði þrátt fyrir fyrirvara á borð við að "atburðir hafi yfir sér "þann brag" að vera refsiverðir og/eða siðlausir í huga þess sem við­hefur meiðyrðin". Þar vísar hún til sigurs Jóns í meiðyrðamáli á hendur Davíð Oddssyni, þá for­sætis­ráð­herra, frá því í júní 2004. Málið verður tekið fyrir í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×