Erlent

Skelfilegum pyntingum lýst

Á sjúkrabeði. Hinn slasaði er eitt lögregluþjónaefnanna sem lentu í árásinni í gær. Faðir hans heilsaði upp á hann á sjúkrahúsið.
Á sjúkrabeði. Hinn slasaði er eitt lögregluþjónaefnanna sem lentu í árásinni í gær. Faðir hans heilsaði upp á hann á sjúkrahúsið.

Í það minnsta 43 létu lífið og 73 særðust þegar tveir menn gyrtir sprengjubelti frömdu sjálfsmorðsárás í lögregluskóla í Bagdad í gær. Í fyrstu var talið að konur hefðu verið að verki en þær fregnir voru dregnar til baka.

Uppreisnarmenn í Írak hafa beint spjótum sínum í auknum mæli að lögreglu- og hermönnum í því skyni að spilla fyrir uppbyggingu öryggissveita landsins. Árásin í gær var sú mannskæðasta sinnar tegundar frá því í 28. febrúar en þá dóu 128 manns í bænum Hillah, flestir verðandi lögreglumenn. Á meðan þessu stóð héldu réttarhöldin yfir Saddam Hussein og sjö samstarfsmönnum hans áfram.

Á meðal þeirra sem báru vitni var kona sem var handtekin og pyntuð í bænum Dujail árið 1982. Hún lýsti því grátandi hvernig hún hefði verið afklædd, barin og gefið ítrekað raflost af lögreglumönnum. Hún gaf einnig í skyn að sér hefði verið nauðgað. Saddam hlýddi þögull á vitnisburð konunnar, en hún talaði úr öðru herbergi og hafði rödd hennar verið breytt svo ekki mætti bera á hana kennsl.

Þá birti al-Jazeera sjónvarpsstöðin myndband af bandarískum manni sem virtist vera gísl hermdarverkamanna. Mannrán á útlendingum færast því stöðugt í vöxt en á mánudaginn var frönskum verkfræðingi rænt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×