Erlent

Eru nálægt því að smíða vopn

ElBaradei framkvæmdastjóri IAEA hvetur Vesturlönd og Íran til að leysa ágreining sinn um kjarnorkumál.
ElBaradei framkvæmdastjóri IAEA hvetur Vesturlönd og Íran til að leysa ágreining sinn um kjarnorkumál.

Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA, segir að ef Íranar komi kjarnorkuveri sínu í Natanz í gang muni það aðeins taka þá nokkra mánuði að smíða kjarnorkusprengju.

Í viðtali við breska blaðið In­dependent hvetur ElBaradei Vesturlönd og Íran til að láta af ögrunum sínum í garð hvers annars, sem hafa stigmagnast á undan­­förnum mánuðum, og semja þess í stað um kjarnorkuáætlun Írana.

Eftir að harðlínumaðurinn Mahmoud Ahmadinejad var kjörinn forseti Írans ákvað ríkisstjórn landsins að hefja fyrstu skref í auðgun úrans í kjarnorkuveri sínu í Isfahan en við það kólnuðu samskipti landsins við Vesturlönd.

Brigslyrðin hafa síðan gengið á víxl en á dögunum reyndu Rússar að miðla málum með því að bjóðast til að auðga úranið fyrir Írana, þó ekki svo mikið að það mætti nota í kjarnorkusprengjur. ElBaradei segist helst óttast að Íranar taki neðanjarðarstöð sína í Natanz á ný því þegar hún er komin í fulla notkun, eftir um það bil tvö ár, muni Íranar geta smíðað kjarnavopn á nokkrum mánuðum.

El Baradei segir þó ekki víst að það sé ætlun þeirra. Mohamed ElBaradei tekur við friðarverðlaunum Nóbels í Ósló á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×