Erlent

Prinsinn hannar fyrir Apple

Karl Filip prins hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð fyrir þátttöku sína í hönnunarsamkeppni  Apple.
Karl Filip prins hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð fyrir þátttöku sína í hönnunarsamkeppni Apple.

Sænski prinsinn Karl Filip sýndi hönnunarverk sín opinberlega í hönnunarsamkeppni sem haldin var í samvinnu við Apple-verslunina í Stokkhólmi. Prinsinn, sem nemur grafíska hönnun við Forsbergsskóla, einn virtasta hönnunarskóla Svíþjóðar, tók þátt í keppninni ásamt öðrum nemendum á lokaári í grafískri hönnun.

Þátttaka prinsins vakti mikla athygli í Svíþjóð því hann þykir mjög feiminn og er vanur að halda sig fjarri sviðsljósinu. Steingrímur Árnason hjá Apple-IMC á Íslandi var viðstaddur hönnunarkeppnina en það er Apple á Íslandi sem rekur verslunina í Stokkhólmi.

"Prinsinn sýndi box til að nota utan um iPod-spilara og það er hægt að tengja það við hátalara. Prinsinn kallar þetta iHome. Hönnun hans var ekki á meðal þriggja efstu en þetta þótti mjög merkilegt því hann er mikil stjarna hérna úti," segir Steingrímur.

"Það er nú ekki á dagskrá að framleiða þessa hönnun. Samkeppnin var frekar haldin til að ná tengingu inn í listaheiminn, svona til að gera eitthvað öðruvísi," segir Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×