Erlent

Ríkisstjórnin áttaði sig ekki á alvörunni

Göran Persson. Sofandaháttur sænskra stjórnvalda eftir flóðbylgjuna í Indlandshafi í fyrra er harðlega gagnrýndur þessa dagana. Krafist er afsagnar þriggja ráðherra, þar á meðal forsætisráðherrans Göran Persson.
Göran Persson. Sofandaháttur sænskra stjórnvalda eftir flóðbylgjuna í Indlandshafi í fyrra er harðlega gagnrýndur þessa dagana. Krafist er afsagnar þriggja ráðherra, þar á meðal forsætisráðherrans Göran Persson.

Skorað er á Göran Persson forsætisráðherra, Lailu Freivalds utanríkisráðherra, Ylvu Johansson öldrunarráðherra auk fimm háttsettra embættismanna í utanríkisráðuneytinu að segja af sér þegar í stað fyrir stórfelld afglöp í starfi en viðbrögð þeirra við flóðbylgjunni í Indlandshafi um síðustu jól þóttu svifasein og ófullnægjandi.

Yfir 500 Svíar fórust í hamförunum. Háværar gagnrýnisraddir fóru af stað eftir að eftir að kynntar voru harðorðar niðurstöður skýrslu um viðbrögð sænska stjórn­kerfisins við hamförunum. Ráðherrar og embættismenn voru í jólafríi eins og stór hluti heimsbyggðarinnar þegar flóðið átt sér stað. Þeir fylgdust lítið með fréttum, gerðu sér enga grein fyrir alvarleika málsins og aðhöfðust lítið sem ekkert fyrr en mörgum dögum eftir harmleikinn í stað þess að mæta strax til vinnu og skipuleggja viðbrögð og hjálparstarf.

Fjölmargir sænskir fjölmiðlar birtu leiðara um málið í gær og þar kom fram gríðarleg reiði vegna lélegrar framgöngu stjórnvalda. Gagnrýnin er talin ein sú allra harkalegasta sem heyrst hefur, nánast ruddaleg, og að ráðamönnum svíði verulega undan henni.

Forsætisráðherrann hefur beðist afsökunar en hann hyggst ekki segja af sér og ætlar heldur ekki að krefjast afsagnar annarra. "Ef einhver ætti að taka pokann sinn þá er það ég," sagði hann við Aftonbladet. Þrír embættismenn hafa verið fluttir í önnur og, að því er talið er, betri störf.

Vantraustsyfirlýsing er í undir­búningi og verður borin fram ef enginn segir af sér eða verður rekinn. Ferns konar gagnrýni kemur fram í skýrslunni: Í sænska stjórn­ar­ráðið vantaði sérstaka deild sem sæi um viðbrögð við slíkum náttúruhamförum, vöktun utanríkisráðuneytisins á ferðum Svía erlendis var í lamasessi, heilsugæslan var ekki viðbúin því að sinna verkefnum erlendis og ræðisskrifstofur höfðu ekki tök á að takast á við svona hamfarir.

Ekki brugðust þó allir í sænska stjórnkerfinu. Í skýrslunni er þremur embættismönnum hrósað sérstaklega fyrir að átta sig strax á alvöru málsins. Þeir mættu þegar í stað til vinnu á jólunum um leið og þeir höfðu heyrt fréttirnar og kölluðu svo aðra starfsmenn til vinnu til að koma hjálparstarfinu í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×