Í kvöld er komið að hápunkti listahátíðarinnar Tónað inn í aðventuna, sem nú stendur yfir í Neskirkju í Vesturbæ Reykjavíkur. Á tónleikum kvöldsins, sem jafnframt eru þeir næst síðustu á dagskrá hátíðarinnar, flytja þeir Martin Frewer fiðluleikari, Steingrímur Þórhallsson organisti og Dean Ferrel kontrabassaleikari Rosenkranz-sónöturnar eftir H.I. Franz von Biber, tónskáld sem spókaði sig hér á jörðu á árunum 1644 til 1704.
Hér er ferðinni algjört meistarastykki sem Íslendingum gefst sjaldan færi á að heyra á tónleikum. Inntak sónatanna eru hugleiðingar um ævi Jesú Krists. Alls eru sónöturnar fimmtán talsins.
Á tónleikunum verða fluttar fimm þær fyrstu sem tengjast fæðingu frelsarans og fyrstu tólf árum í lífi hans. Tónlistarhátíðinni í Neskirkju lýkur um næstu helgi með tónleikum þar sem Kór Neskirkju flytur valda kafla úr "Petit Messe solennelle" eftir G. Rossini ásamt hefðbundnum aðventu- og jólalögum.