Innlent

Langflest brot á höfuðborgarsvæðinu

Neyðarlínunni 112 berast aðeins um fimm prósent allra tilkynninga um brot gegn börnum.
Neyðarlínunni 112 berast aðeins um fimm prósent allra tilkynninga um brot gegn börnum.

Á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs bárust Barnaverndarstofu alls 3.648 tilkynningar um brot gegn 3.576 börnum. Af þeim bárust 71,9 prósent tilkynninganna frá höfuðborgarsvæðinu og 28,1 prósent frá landsbyggðinni.

Ástæður tilkynninga skiptast þannig að 46,7 prósent eru vegna áhættuhegðunar barna, 35,6 prósent vegna vanrækslu, 17,3 prósent vegna ofbeldis, og 0,4 prósent vegna gruns um að heilsa eða líf ófædds barns sé í hættu. Barnaverndarstofa heldur utan um fjölda tilkynninga sem berast barnaverndarnefndum landsins, en sískráning brota hófst í byrjun þessa árs.

Síðan í febrúar árið 2004 hefur Neyðarlínan tekið við tilkynningum um brot gegn börnum, en enn berast langflestar tilkynningar beint til barnaverndarnefnda, um 95 prósent allra tilkynninga. Langflestar tilkynningar sem berast Neyðarlínunni eru vegna mála í Reykjavík.

Ef grunur leikur á að líf barnsins sé í hættu sendir Neyðarlínan lögreglu og sjúkrabíl á svæðið. Sé um annan forgang að ræða sendir Neyðarlínan málið til starfsmanns viðkomandi barnaverndarnefndar, en alltaf er starfsmaður á bakvakt, berist tilkynningin utan venjubundins vinnutíma. Að öðru leyti er málið sent viðkomandi barnaverndarnefnd í býtið daginn eftir að tilkynning berst. Ef grunur leikur á að brotið sé gegn barni ber fólki samkvæmt lögum að tilkynna það.

"Sú skylda hvílir á hverjum og einum að ef grunur vaknar um að barn búi við slæman aðbúnað að tilkynna það til barnaverndar," segir Þórhildur Líndal lögfræðingur, sem starfaði í áratug sem umboðsmaður barna. "Það er mikil hagræðing í því að nú er bara eitt númer sem hægt er að hringja í til þess tilkynna grun um brot, ég held það sé mikið til hins góða og auðveldi fólki að tilkynna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×