Innlent

Fjármálaráðuneytið ásælist Íbúðalánasjóð

Fundur er fyrirhugaður í vikunni milli fjármála- og félagsmálaráðuneyta þar sem reynt verður að ná sátt um framtíð Íbúðalánasjóðs. Eftir því sem næst verður komist er deilt um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs. Fjármálaráðuneytið hefur sóst eftir því að færa starfssemi sjóðsins undir Lánasýslu ríkisins og þar með fjármálaráðuneytið í stað félagsmálaráðuneytis.

Umsvif sjóðsins í íslensku hagkerfi eru umtalsverð en fyrirhugaðar lántökur íbúðalánasjóðs á næsta ári nema 88 milljörðum króna. Fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. sendi félagsmálaráðuneytinu reikning upp á rúmar sjö milljónir króna sem ráðuneytið neitar að greiða. Reikningurinn var fyrir úttekt á fjárhagslegri stöðu Íbúðalánasjóðs. Niðurstöður þessarar úttektar hafa enn ekki birst.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra sagði nýverið í fjölmiðlum að hann legðist ekki gegn þessari úttekt en benti á að engin niðurstaða hafi náðst um hvað eigi að skoða og hvað slík úttekt eigi að kosta. Í sama viðtali taldi ráðherrann að það væri að sólunda með almannafé að greiða sjö milljónir fyrir þessa þjónustu.

"Það er búið að tala alveg nóg um þetta," var það eina sem Þórhallur Arason á fjárreiðuskrifstofu fjármálaráðuneytisins hafði um málið að segja í gærkvöldi. Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu er erlendis og varð ekki fyrir svörum.

Fyrirtækið Capto Financial Consulting í Svíþjóð sinnir þessu sama ráðgjafa- og úttektarhlutverki fyrir Íbúðalánasjóð og hefur sent reikning fyrir sína vinnu sem hljóðar upp á einn tíunda af því verði sem Ráðgjöf og efnahagsspár setur upp. Capto gegnir svipuðu ráðgjafar og úttektarhlutverki meðal annars fyrir sænska seðlabankann, Volvo, Electrolux og fleiri stór alþjóðleg fyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×