Innlent

Vistvæn orka á Akureyri

Valgerður Sverrisdóttir. Nýtt Orkusetur tók til starfa á Akureyri á fimmtudag.
Valgerður Sverrisdóttir. Nýtt Orkusetur tók til starfa á Akureyri á fimmtudag.

Orkustofnun og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafa sett nýtt orkufyrirtæki á laggirnar á Akureyri, með fjárhagslegri aðstoð KEA, Samorku og Evrópusambandsins. Fyrirtækið Orkusetrið tók til starfa á fimmtudag undir stjórn Sigurðar Inga Friðleifssonar.

"Þetta er í samstarfi við Evrópusambandið," segir Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. "Við sóttum um styrk vegna þessa því Evrópuþjóðir eru að hugsa um þetta mál, það er að fara vel með orku. Sambandið leggur í þetta fimm til sex milljónir króna í þrjú ár. Síðan erum við í samstarfi við KEA, sem leggur einnig fimm milljónir króna í þetta á ári í þrjú ár, og svo kemur ríkið að þessu að auki."

Hlutverk Orkuseturs er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar. Verkefni Orkuseturs verða einnig á sviði nýrra orkugjafa og gerð fræðsluefnis.

Til Akureyrar verða jafnframt flutt verkefni á sviði vettvangs um vistvænt eldsneyti sem hefur það að markmiði að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í málefnum er varða vistvænni eldsneytisnotkun og möguleika á nýtingu innlendrar orku í því samhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×